Vilhjálmur fallinn frá

Vilhjálmur Hjálmarsson lést í morgun á Brekku í Mjóafirði.  Hann hefði orðið 100 ára þann 20. september næstkomandi og stóð til að bókin Örnefni í Mjóafirði eftir hann sjálfan yrði afmælisrit hans.  Reyndar hafði Vilhjálmur ávallt sagt að annaðhvort yrði bókin afmælisrit eða minningarrit og því miður varð hið síðarnefnda ofan á.  Hann hafði hlakkað mikið til útgáfu hennar, enda mikið í lagt, og hafði þegar verið safnað nokkrum áskrifendum að henni.  Áfram skal haldið á þeirri braut og munu nöfn þeirra sem skrá sig sem áskrifendur verða birt undir fyrirsögninni Tabula memorialis (í stað Tabula gratulatoria).

Vilhjálmur var bóndi, kennari, alþingismaður og ráðherra, sem og stórtækur rithöfundur í seinni tíð og liggja eftir hann fjölmargar bækur.  Þær síðustu voru gefnar út af Bókaútgáfunni Hólum og áttum við margt og skemmtilegt spjallið vegna þeirra, bæði yfir kaffibolla og eins símleiðis.  Fyrir það vil ég þakka að leiðarlokum og sendi jafnframt börnum hans og öðrum ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðjón Ingi Eíríksson

Mánudagur 14. júlí 2014
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is