Áhugaverð ævisaga Elfríðar

Ein af næstu jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla verður ævisaga Elfríðar Idu Emmu Pálsdóttur sem fædd er í Þýskalandi árið 1930. Hún kynntist hörmungum stríðsáranna 1939 – 1945, en hún missti foreldra sína, þrjá bræður, skyldmenni og vini í stríðinu. Það var erfitt fyrir ungling að horfa upp á tvo bræður og móður deyja úr taugaveiki eða næringarskorti á aðeins fjórum dðgum. Loftárásir voru daglegt brauð og dauðinn var mjög nálægur. Ástandið á þessum tíma var afar bágborið, vöruskortur og lítið fæðuframboð. Í lok stríðsins var Elfríð illa farin af næringaskorti t.d. missti hún hárið og var lengi að jafna sig. Hún ákvað að fara til Íslands árið 1949 eftir að hafa séð auglýsingu, þar sem falast var eftir starfskröftum í landbúnaðarstörf. Eitthvað innra með henni hvatti hana til að söðla um og fara burt frá heimalandinu sem var í sárum eftir allar sprengjuárásirnar.  Hún sótti  um vinnu og var ráðin á sveitabæ til eins árs. Hún kynntist mannsefninu Erlendi Magnússyni á næsta bæ og ástin tók völdin – ekki varð aftur snúið heim.  Elfríð hefur verið ötul að pára niður endurminningar sínar og margir hafa hvatt hana til að gefa efnið út. Dóttir hennar, Helga Erla Erlendsdóttir, tók að sér að skrifa bók um lífshlaup hennar og Guðrún Ásgeirsdóttir, tengdadóttir Elfriðar, verður henni til aðstoðar við það.

Miðvikudagur 26. janúar 2011
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is